Sjúkraliðinn - Ég

Ég var á kvöldvakt í gær, jóladag, og þegar ég var að finna mig til fyrir vinnuna, þá horfði yngri sonur minn á mig undrunar augum og spurði "Mamma, ert þú ekki líka í jólafríi eins og allir?" og þegar ég svaraði neitandi, þá fannst honum óréttlátt að mamma þyrfti að fara í vinnu á jólunum. Ég að sjálfsögðu útskýrði fyrir honum að fólk hættir ekkert að vera veikt þó að það séu jólin og að við sjúkraliðar verðum auðvitað að vera í vinnu þegar fólk er veikt.

Mynd af snappinu mínu: fridabsandholt


Ég er sjúkraliði.

Ég vinn á landspítalanum.

Ég valdi mér þetta starf, vegna þess að ég hef gaman að því, ég elska vinnuna mína og ég vildi ekki skipta henni út fyrir neitt annað. Ég nýt þess að geta hjálpað þeim sem eru veikir og þurfa á aðstoð minni og umönnun að halda. Sjúkraliðastarfið er gefandi og skemmtilegt, en oft á tíðum er það líka mjög erfitt, bæði andlega og líkamlega. Það er oft mikið álag á starfsólki spítalans og við verðum að geta staðið upprétt, sama hvað bjátar á. Við sjúkraliðar verðum að geta staðið undir miklu álagi og við þurfum að vera til staðar fyrir sjúklinga og annað starfsfólk á deildinni og það skiptir öllu máli að starfsólk spítalans geti unnið saman, hvort sem það eru læknar, hjúkrunarfræðingar eða sjúkraliðar því að starfsfólk spítalans ER spítalinn. Ég vinn á jólunum, ég vinn á áramótunum, ég fæ ekki páskafrí eða jólafrí. Ég vinn um helgar og á kvöldin.
Ég er til staðar þegar á þarf að halda. Við sjúkraliðar erum til staðar þegar á þarf að halda.

Ég er sjúkraliði.

Ég vinn á landspítalanum.

Mynd fengin að láni hjá www.mbl.is


Ég fæ allt of oft þessa spurningu "Ertu BARA sjúkraliði?" "Afhverju ferðu ekki í hjúkrun?" "Sjúkraliðanám er kannski ágætis byrjun á námi" eða "þú ferð bara seinna í háskóla"

Eins vel og fólk meinar með þessu, eða heldur að það meini, þá gera þessar spurningar lítið úr sjúkraliðanum.
Sjúkraliðastarfið er mjög göfugt og mikilvægt starf. Án okkar þá myndi án efa mikið vanta á spítalann. Ég veit að launin eru alls ekki há. Enda veit ég að það er enginn sjúkraliði að starfa á landspítalanum eingöngu launanna vegna. Við störfum við þetta vegna þess að okkur líður vel í vinnunni okkar og við njótum þess að geta hjálpað, hjúkrað og verið til staðar.

Næst þegar þú hittir sjúkraliða, þá máttu endilega kasta á hann/hana kveðju og láta eins og eitt fallegt orð eða hrós fylgja með ;)

Mynd fengin að láni hjá www.mbl.is





Ummæli

Vinsælar færslur