Kjúklingapasta með piparost og parmessan

Það er alltaf gott að geta gripið í einfaldar og fljótlegar uppskriftir þegar kemur að kvöldmat.
Okkur fjölskyldunni finnst afar gott að fá okkur stundum pasta og mér finnst gaman að þróa nýjar pasta uppskriftir.
Nýlega gerði ég þetta kjúklingapasta sem er mjög fljótlegt og einfalt að gera og því tilvalið í amstri dagsins að skella í bragðgóða pasta máltíð.



Hráefni:
4 stk kjúklingabringur
Ólívuolía
Salt og pipar eftir smekk
1-2 tsk Steinselja söxuð niður
Pasta Tagliatelle (ég notaði c.a. 10 "kúlur")
2 dl mjólk
3 dl kjúklingasoð (það má líka búa til soð úr vatni og kjúklingatening)
1 stk piparostur
2 dl rifinn ostur
1 dl parmessan ostur
2 dl rjómi/matreiðslurjómi

Aðferð:
Skerið kjúklingabringurnar í strimla eða bita og steikið á pönnu í ólívuolíu þar til þær eru orðnar gullnar að lit. Kryddið með salti og pipar. Þegar bringurnar eru orðnar alveg steiktar er mjólkinni og kjúklingasoðinu bætt út í og látið malla í nokkrar mínútur. Skerið piparostinn í teninga og bætið honum út í ásamt rifna ostinum. Látið malla áfram og hrærið vel í inn á milli.
Sjóðið pastað í c.a. 10 mínútur og bætið því út í blönduna.
Í lokin er rjómanum, parmessan ostinum og söxuðu steinseljunni bætt út í og hrært saman þar til jöfn áferð er á sósunni.

Fallegt er að skreyta pastað með steinselju áður en það er borið fram.

Borið fram með hvítlauksbrauði eða snittubrauði.


Ásamt því að skrifa pistla hér á bloggsíðuna mína, þá er ég líka með instagram reikning sem ykkur er velkomið að fylgja :) Insta:fridabsandholt

Ummæli

Vinsælar færslur