Ekki bara sjúkraliði



Ég er sjúkraliði og ég er stolt af því.

En því miður er það allt of oft að við sjúkraliðar viljum gleymast í umræðu um heilbrigðismál eða okkur er ruglað saman við aðrar starfsstéttir eins og t.d. bráðaliða. Það er mjög algengur misskilningur að á sjúkrabílum starfi sjúkraliðar, það er ekki rétt. Sjúkraliði og bráðaliði er alls ekki það sama. En við eigum það reyndar sameiginlegt að við erum til staðar á erfiðustu tímum í lífi fólks.



En að okkur sjúkraliðum.

Það virðist oft vera þannig að fólk vill gleyma því að við séum til.
Það starfa nefnilega ekki bara læknar og hjúkrunarfræðingar á landspítalanum, þar starfa nefnilega líka sjúkraliðar við umönnun og hjúkrun.

Sem sjúkraliði er ég til staðar, sama hvað dynur á.

Stundum fæ ég spurninguna: "Ertu bara sjúkraliði" Og fæ að heyra setningar eins og "Þú ferð svo bara og lærir hjúkrun, er það ekki?"  og "Afhverju fórstu ekki í hjúkrun" Eins og það sé eitthvað minna starf eða ekki eins merkilegt að vera sjúkraliði.

Ég er ekki bara sjúkraliði.

Ég er sjúkraliði og ég er stolt af því.

Ég er til staðar fyrir þig þegar þér líður illa og þú þarft mest á mér að halda.
Ég er til staðar þegar ástvinur þinn veikist
Ég er til staðar til að búa um sárin þín
Ég er til staðar þegar þú þarft einhvern sem hlustar á þig
Ég er til staðar þegar þú þarft öxl til að gráta á
Ég er til staðar þegar þú þarft einhvern til að hjálpa þér á fætur
Ég er til staðar til að gleðjast með þér þegar eitthvað gengur vel
Ég er til staðar fyrir þig þegar þú þarft einhvern til að hvetja þig áfram
Ég er til staðar fyrir þig.

Ég hef þerrað tár
Ég hef huggað í sorgum
Ég hef hughreyst á erfiðum tímum
Ég hef verið til staðar við síðasta andardrátt
Ég hef grátið með aðstandendum
Ég hef sýnt samúð á sorgarstundum
Ég hef verið til staðar.

En ég hef líka brosað með þér þegar vel gengur
og ég hef glaðst með þér þegar þú hefur náð heilsu á ný.

Sjúkraliði gengur mörg þúsund skref á hverri vakt
Sjúkraliði vinnur á jólum, páskum og áramótum þegar aðrir eru í fríi
Sjúkraliði vinnur á daginn, á kvöldin og á nóttunni þegar aðrir sofa
Sjúkraliði gengur í þau verk sem honum ber, sama hversu erfið þau eru
Sjúkraliði þrífur upp blóð, þvag og annað álíka, án þess að hika

Það að vera sjúkraliði gefur mér svo ótal margt.

Það gefur mér gleði að geta hjálpað og mér finnst það forréttindi að fá að vinna við það að hjúkra og hjálpa og vera til staðar.
Það gefur mér hlýju að fá bros til baka frá skjólstæðingum mínum
Það gefur mér vellíðan að finna þann kærleika sem sjúkraliðastarfið felur í sér

Ég er sjúkraliði - og er stolt af því




Ásamt því að skrifa pistla hér á bloggsíðuna mína, þá er ég líka með instagram reikning sem ykkur er velkomið að fylgja :) Insta:fridabsandholt



Ummæli

Vinsælar færslur