Grjónagrauturinn minn

Eitt af því besta sem börnin mín fá er grjónagrautur. Og best af öllu finnst þeim þegar hann er borinn fram með rúsínum og lifrarpylsu.  Ég hef lengi haft uppskriftina í kollinum og ákvað að skrifa hana niður núna og skella henni hérna inn. Þessi grautur er ótrúlega einfaldur, en það þarf að vísu að fylgjast vel með pottinum og hræra reglulega svo hann brenni ekki við.




En hér kemur uppskriftin:

(Fyrir 5)

Hráefni:


3 dl hrísgrjón
4 dl vatn
1/2 tsk salt
10-12 dl mjólk (ég nota hvort sem er nýmjólk eða léttmjólk, bara það sem ég á til)
1 tappi vanilludropar
Rúsínur eftir smekk.


Aðferð:


Setjið grjónin í pott ásamt vatni og salti og sjóðið í 2-3 mínútur. Bætið svo mjólkinni rólega útí og hrærið vel á milli. Þegar öll mjólkin er komin út í og grauturinn orðinn vel þykkur, þá er lækkað vel undir og grauturinn látinn malla í pottinum. Í lokin er vanilludropunum bætt út í ásamt rúsínunum. 

Ég set samt aldrei rúsínurnar út í grautinn, því að á mínu heimili vilja ekki allir rúsínur í hann. En hins vegar ber ég grautinn fram með rúsínum, lifrarpylsu og kanilsykri.
Verði ykkur að góðu ;)


Ásamt því að skrifa pistla hér á bloggsíðuna mína, þá er ég líka með instagram og eins held ég úti opnum snapchat reikningi og ykkur er velkomið að fylgja mér þar ef þið hafið áhuga.


Insta: fridabsandholt

Snap:fridabsandholt


Ummæli

Vinsælar færslur