Skinkuhorn




Ég reyni að vera dugleg að baka til heimilisins, það er bæði ódýrara en að kaupa það úti í búð og eins finnst heimilisfólki mjög gott að fá nýbakað brauð og bakkelsi.
Um daginn bakaði ég þessi lúnamjúku og bragðgóðu skinkuhorn og vil endilega deila uppskriftinni af þeim með ykkur.
Þessi skinkuhorn eru líka tilvalin fyrir börnin í skóla-nestið.

En hér kemur uppskriftin:

c.a. 32 stk.

Hráefni:

7,5 dl. volg mjólk
300 gr mjúkt smjörlíki
3 tsk sykur
3 tsk salt
1500 gr hveiti
1 bréf þurrger
c.a. 10 sneiðar skinnka, smátt skorin
c.a. 1,5 dós smurostur með skinnku
c.a. 1 poki rifinn ostur
2 egg til penslunar

Aðferð:

Þurrefnin sett í skál og blandað varlega saman, mjólkin hituð (c.a. 35 °c) og mjólkinni ásamt mjúku smjörlíkinu og gerinu bætt út í og hnoðað saman. Ég nota krókinn á hrærivélinni minni til að hnoða deigið, en  það er auðvitað alveg jafn gott að hnoða það í höndunum. Gott er að hnoða fyrst á hægum hraða og auka svo hraðann. Hnoðið vel saman og látið deigið hefast vel á volgum stað.
Mér finnst gott að setja plastfilmu eða rakt viskastykki yfir skálina og láta hana í eldhúsvaskinn sem ég hef fyllt af heitu vatni og láta deigið hefast þar.
Takið svo deigið úr skálinni og setjið á borðið, gott er að strá smá hveiti yfir borðplötuna svo deigið festist ekki við hana. skiptið deiginu í 4 jafn stóra hluta, hnoðið því varlega saman í kúlu og fletjið deigið út eina kúlu í einu. 
Þegar búið er að fletja deigið út er það skorið í 8 jafn stóra þríhyrninga (eins og pizza sneiðar) 

Fylling:

Setjið c.a. hálfa til eina teskeið af smurosti á breiðasta hluta þríhyrningsins, þar á eftir set ég niðurskorna skinkuna og svo örlítinn rifinn ost yfir allt saman.

Að lokum rúlla ég upp hornunum og byrja á breiðasta hlutanum og um leið passa ég að fyllingin sé eins innarlega á horninu og ég get.

Hornunum er svo raðað á bökunarplötu (ég set alltaf bökunarpappír á plötuna) 
Ég enda svo á að pensla hornin með eggi sem ég hef pískað saman í skál.

Hornin eru svo bökuð við 180°c á blæstri í c.a. 10-12 mínútur, eða þar til hornin eru orðin fallega gullin að lit.


Fletjið degið út og skerið í þríhyrininga
og setjið smurostinn á.

Því næst er skinnka sett ofan á smurostinn


Og að lokum örlítið af rifnum osti.


Hornunum er rúllað upp, byrjað á breiða endanum.


Penslað með eggi oh
bakað við 180°c í 10-12 mín.

Ummæli

Vinsælar færslur